Samantekt um þingmál

Íslenskur ríkisborgararéttur og barnalög

133. mál á 148. löggjafarþingi.
Dómsmálaráðherra.

Markmið

Að gera lagaúrbætur svo unnt verði að fullgilda tvo samninga Sameinuðu þjóðanna um ríkisfangsleysi. 

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að barn öðlist íslenskt ríkisfang við fæðingu ef foreldri þess er íslenskur ríkisborgari, óháð því hvort barnið fæðist hér á landi eða erlendis og óháð því hvort foreldrar barnsins hafi gengið í hjúskap. Að auki er lagt til að heimild til að óska eftir íslenskum ríkisborgararétti í ákveðnum tilvikum nái fram til 21 árs aldurs. Enn fremur er gert ráð fyrir að fæðing barns um borð í skipi eða loftfari jafngildi fæðingu hér á landi ef fánaríki skipsins er Ísland eða skráningarríki loftfars er íslenskt. Lagðar eru til breytingar er varða málsmeðferð þegar íslenskur ríkisborgari, búsettur erlendis, ættleiðir barn á grundvelli reglna í upprunaríki barnsins. Þar að auki eru lagðar til breytingar er miða að því að jafna stöðu barna sem ættleidd eru af íslenskum ríkisborgurum. Enn fremur er gert ráð fyrir að þeim sem teljast ríkisfangslausir samkvæmt ákvæðum útlendingalaga sé leyft að sækja um íslenskan ríkisborgararétt eftir fimm ára búsetutíma hér á landi en almenna búsetureglan er sjö ár.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952.

Barnalög, nr. 76/2003.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir auknum fjárhagsáhrifum á ríkissjóð svo nokkru nemi.

Afgreiðsla

Samþykkt með þeirri breytingu að fellt var brott viðmið um 18 ára aldur þannig að ekki þyrfti að uppfylla þriggja ára búsetuskilyrði fyrir 18 ára aldur. Þess í stað geti sá sem er ríkisfangslaus eða hefur hlotið alþjóðlega vernd lagt fram tilkynningu fyrir 21 árs aldur að uppfylltum skilyrðum um þriggja ára búsetu. 

Aðrar upplýsingar

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu ríkisfangslausra manna.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um að draga úr ríkisfangsleysi.


Löggjöf á Norðurlöndum

Danmörk

Bekendtgørelse af lov om dansk indfødsret  LBK nr 422 af 07/06/2004.

 

Finnland

Medborgarskapslag  16.5.2003/359.

 

Noregur

Lov om norsk statsborgerskap (statsborgerloven)  LOV-2005-06-10-51.

 

Svíþjóð

Lag om svenskt medborgarskap (2001:82).



Síðast breytt 12.06.2018. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.